Fara beint í efnið

Að veikjast

Heilbrigðiskerfið er það kerfi sem kemur sennilega mest við sögu alla okkar ævi, það tekur á móti okkur þegar við komum í heiminn og fylgir okkur jafnan síðasta spölinn þegar við kveðjum hann. Þar á milli er það alltaf til staðar til að hjálpa okkur þegar veikindi eða slys ber að garði.

Neyðartilvik

Í neyðartilvikum skal alltaf hringja í Neyðarlínuna í síma 112.

Hjá Neyðarlínunni svara neyðarverðir allan sólarhringinn, allt árið. Í samtali við neyðarvörð er mikilvægt að veita eins skýrar upplýsingar og mögulegt er svo neyðarvörður geti sem best aðstoðað og sent rétta aðila á vettvang.

Fyrstu viðbrögð við slysum eða skyndilegum veikindum eru afar mikilvæg og í neyð getur skipt sköpum að kunna skyndihjálp. Rauði krossinn býður upp á fjölbreytt og vönduð námskeið þar sem áhersla er lögð á að kenna rétt viðbrögð og einfaldar aðferðir í skyndihjálp.

Önnur bráð veikindi og slys

Slysa- og bráðamóttökur eru á flestum heilsugæslum og sjúkrahúsum. Heilsugæslan veitir bráðaþjónustu þegar um bráð veikindi og smáslys er að ræða en gott er að venja sig á að hringja í upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700. Heilsugæslustöðvarnar eru opnar á dagvinnutíma en á kvöldin og um helgar má leita til Læknavaktarinnar. Þar er tekið á móti erindum frá kl. 17:00 til kl. 22:00 á virkum dögum og um helgar frá kl. 9:00 til kl. 22:00. Símaráðgjöf (sími 1770) er veitt frá kl. 17:00 til 8:00 á virkum dögum og allan sólarhringinn um helgar.

Stærsta bráðamóttaka landsins er á Landspítalanum í Fossvogi. Þar er tekið á móti bráðatilvikum vegna slysa og alvarlegra veikinda allan sólarhringinn, allt árið. Á Landspítala er einnig að finna bráðamóttöku barna, bráðaþjónustu barna- og unglingageðdeildar, bráðamóttöku geðdeildar, bráðaþjónustu kvennadeilda, neyðarmóttöku vegna kynferðislegs ofbeldis og eitrunarmiðstöð.

Utan höfuðborgarsvæðisins er hægt að leita til slysa- og göngudeilda á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ.

Heilsuvera og önnur þjónusta heilsugæslustöðva

Heilsuvera er vefur fyrir almenning þar sem finna má fræðsluefni og upplýsingar um sjúkdóma og ráðleggingar um leiðir til betri heilsu. Á Heilsuveru má einnig komast í samband við heilbrigðisstarfsfólk í gegnum netspjall og með innskráningu á „mínar síður“ er til að mynda hægt að bóka tíma hjá heilsugæslu og sérfræðilæknum, endurnýja lyfseðla og finna persónulegar upplýsingar um bólusetningar, lyfseðla og heilsufar.

Á heilsugæslustöðvum um allt land er meðal annars boðið upp á viðtals- og símatíma lækna og hjúkrunarfræðinga, mæðravernd, ung- og smábarnavernd, bólusetningar, heilsuvernd skólabarna og sálfræðiþjónustu. Upplýsingar um hvaða heilsugæslustöð er næst þér finnur þú til dæmis á Heilsuveru.

Landspítali

Landspítalinn er stærsta sjúkrahús landsins. Meðal hlutverka Landspítala er að veita heilbrigðisþjónustu í fremsta gæðaflokki, skapa nýja þekkingu með rannsóknum og kenna og þjálfa fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu. Landspítalinn gegnir einnig mikilvægu stoðhlutverki við heilbrigðisstofnanir um allt land.

Stærstu starfsstöðvar Landspítala eru við Hringbraut og í Fossvogi. Við Hringbraut eru meðal annars kvenna- og barnadeildir, barnaspítalinn, bráðageðdeild, ýmsar skurðdeildir og dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga. Í Fossvogi er til að mynda tekið á móti sjúklingum á bráðamóttöku, eitrunarmiðstöð, bráðamóttöku vegna kynferðisofbeldis og ýmsum göngu- og skurðdeildum. 

Yfirlit yfir deildir og þjónustu má finna á vef Landspítala, landspitali.is.

Sjúkraskrá er safn upplýsinga sem skráðar eru í tengslum við meðferð á heilbrigðisstofnun. Öll eigum við rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá en sjúkraskrár eru geymdar hjá þeirri heilbrigðisstofnun þar sem hún verður til. Beiðni um aðgang er hægt að senda til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar, það er læknis sem viðkomandi heilbrigðisstofnun hefur falið að hafa eftirlit með að skráning og meðferð upplýsinga sé í samræmi við lög. Hjá Landspítala er hægt að óska eftir aðgangi í gegnum form á vef spítalans. Það á einnig við um beiðnir sem sendar eru á Sjúkrahúsið á Akureyri og í gegnum gagnagátt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þurfir þú að sækja sjúkraskrá annað skaltu hafa beint samband við viðkomandi stofnun.

Sjúkratryggingar

Sjúkratryggingar Íslands greiða hluta af kostnaði eða allan kostnað þeirra sem eru sjúkratryggðir vegna heilbrigðisþjónustu. Markmið laga um sjúkratryggingar er að tryggja aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Þjónusta Sjúkratrygginga felst meðal annars í greiðsluþátttöku vegna ferðakostnaðar, kaupa á hjálpartækjum, lyfjakaupa, sálfræðiþjónustu barna, sjúkraþjálfunar og tannlækninga auk greiðslu sjúkradagpeninga.

Sjúkratryggingar annast einnig útgáfu evrópska sjúkratryggingakortsins sem veitir rétt til heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-löndum og Sviss. Kortið kemur sér vel þegar veikindi ber að á ferðalagi í Evrópu en það tryggir að korthafi greiðir sama gjald fyrir þjónustu og íbúar í viðkomandi landi. Sækja um evrópska sjúkratryggingakortið.

Forvarnir og lýðheilsa

Konum á Íslandi er boðin skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi, en skimunin er mikilvæg forvörn sem býðst einkennalausum konum. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Konum er boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23 til 29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30 til 64 ára. Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hefur yfirumsjón með þessum skimunum en skimanir fyrir brjóstakrabbameini fara fram í brjóstamiðstöð Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri auk þess sem skimað er á nokkrum stöðum á landsbyggðinni á vorin og haustin. Heilsugæslan annast skimun fyrir leghálskrabbameini og tímar í skimun bókaðir hjá heilsugæslustöðvum um allt land.

Heilbrigðiskerfið allt vinnur svo að bættri lýðheilsu, það er að bæta líkamlega og andlega heilsu fólksins í landinu með heilsuvernd og forvörnum. Lýðheilsuverkefnin eru mörg og unnin vítt og breitt um landið en þessi forvarna- og heilsueflingarverkefni eru gjarnan samvinnuverkefni viðkomandi aðila og embættis landlæknis. Embættið gegnir veigamiklu hlutverki í heilbrigðiskerfinu. Það ber til dæmis ábyrgð á eftirliti með heilbrigðisþjónustu á landinu, gefur út starfsleyfi til heilbrigðisstarfsfólks og heldur utan um starfsleyfaskrá. Þar að auki er því ætlað að stuðla að heilbrigði landsmanna meðal annars með góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu og öflugum forvörnum.